Hulda húsamús átti heima í stórri húsamúsahöll. Hún var nefnilega húsamúsaprinsessa. Hún átti fullt af fallegum músafötum, fullt af fallegu músadóti og hafði fullt af músaþjónum sem tóku til í herberginu hennar. Þrátt fyrir þetta var Hulda ekki ánægð prinsessumús! Henni þótti leiðinlegt að geta ekki farið út nema lífverðirnir hennar væru með. Hún gat ekki farið í bíó, leikhúsog ekki einu sinni út að hjóla án þess að hafa lífverðina endalaust í eftirdragi.
Einn daginn ákvað Hulda húsamús að hún vildi ekki lengur vera húsamúsaprinsessa. Hún bað pabba sinn, húsamúsakónginn og mömmu sína, húsamúsadrottninguna, um leyfi til að fá að flytja út í haga og verða hagamús. Hana langaði svo mikið til að búa úti í náttúrunni, finna vindinn í feldinum og fá að safna sér vetrarforða eins og mýsnar sem bjuggu í haganum.
Henni til mikillar gleði sögðu pabbi hennar og mamma já. En þau sögðu henni líka að hún gæti alveg komið til baka og orðið aftur húsamúsaprinsessa ef hún vildi.
Hulda varð svo glöð að hún vissi ekkert hvernig hún átti að haga sér. Hún dreif sig inn í risastóra herbergið sitt og byrjaði að pakka því sem hún hélt að hún gæti notað þegar hún flytti út í hagann.
Pabbi hennar og mamma héldu kveðjuveislu fyrir Huldu. Þau voru glöð að sjá hana svona glaða en voru líka svolítið leið yfir því að hún væri núna að fara að flytja frá þeim.
Um kvöldið fór Hulda að sofa. Hút átti mjög erfitt með að sofna af því að hún var svo spennt! En, svo fór nú samt að lokum að hún sofnaði.
Daginn eftir ætlaði hún að flytja í hagann. það voru mörg ævintýri sem biðu hennar... En það vissi hún ekkert um þar sem hún svaf vært síðustu nóttina sína í höllinni.
Góða nótt
No comments:
Post a Comment